Samþykkisyfirlýsing vegna ferðalaga barna til útlanda

Hvað er samþykkisyfirlýsing vegna ferðalaga barna til útlanda?

Ef barnið þitt ferðast eitt til útlanda eða með öðrum fullorðnum í tengslum við  t.d. frí, fjölskylduheimsókn, sumarbúðir, íþróttaferð eða skóladvöl, er mikilvægt að vera meðvitaður um þær reglur sem gilda um ferðalög barna undir lögaldri til útlanda.

Sum lönd leyfa ekki börnum undir lögaldri að fara inn í eða fara úr landi nema þau séu annaðhvort í fylgd með foreldrum/forráðamönnum eða hafi frá þeim skriflegt leyfi. Sem foreldri er það á þína ábyrgð að tryggja að komu og brottfararreglum ákvörðunarlandsins sé fylgt.

Samþykkisyfirlýsing er skjal þar sem annað eða báðir foreldrar veita öðrum leyfi til að ferðast til útlanda með barn undir lögaldri.

Á Ísland.is er hægt að nálgast eyðublað sem inniheldur samþykkisyfirlýsingu vegna ferðalaga barna til útlanda

Hvaða lönd krefjast samþykkisyfirlýsingar?

Það er ekki til heildarlisti yfir þau lönd sem leyfa ekki að ólögráða einstakingar ferðist einir. Lögræðisaldur getur einnig verið mismunandi eftir löndum. Þess vegna er mælt með því að hafa samband við sendiráð eða ræðisskrifstofu þess lands sem barnið þitt er að fara til og fá frekari upplýsingar um þær reglur sem gilda og þær upplýsingar/skjöl sem þarf.

Hvaða upplýsingar þurfa að koma fram í samþykkisyfirlýsingu?

Almennt er gert ráð fyrir að samþykkisyfirlýsing innihaldi eftirfarandi upplýsingar:

• Nafn barns, heimilisfang, fæðingardag, númer vegabréfs og þjóðerni

• Nöfn, heimilisföng, vegabréfsnúmer og þjóðerni fullorðinna sem fylgja barninu og tengsl þeirra við barnið

• Nöfn beggja foreldra eða forráðamanna, heimilisfang, þjóðerni og símanúmer

• Upplýsingar um áfangastað, ferðadagsetningar og tengiliðaupplýsingar meðan á dvölinni stendur

Ef barnið ferðast með fullorðnum sem er ekki foreldri þess,  gæti borgað sig að veita viðkomandi heimild til að gæta hagsmuna barnsins á meðan á ferðinni stendur, til dæmis ef upp koma skyndileg veikindi eða slys.

Að auki er einnig mælt með því að láta afrit af fæðingarvottorði barnsins og afrit af vegabréfum foreldra fylgja með. Sé ekki um sameiginlega forsjá að ræða er heppilegt að gögn um það fylgi með samþykkisyfirlýsingunni.  

Yfirvöld í ákvörðunarlandi hafa síðasta orðið

Þrátt fyrir að upplýsingarnar sem þurfa að koma fram í samþykkisyfirlýsingunni séu að miklu leyti staðlaðar þá eru það yfirvöld í því landi sem ferðast er til sem ákveða hvaða reglur gilda um komu og brottför til landsins. Þess vegna borgar sig að hafa samband við  sendiráð eða ræðisskrifstofu landsins sem ferðast á til áður en farið er af stað til að tryggja að barnið þitt geti ferðast þangað eitt eða í fylgd með fullorðnum sem er ekki forsjárforeldri.

Hvaða upplýsingar er mikilvægt að fá frá sendiráði eða ræðisskrifstofu?

• Ef barnið ferðast með öðru foreldra sinna, þarf þá að fylgja samþykkisyfirlýsing frá hinu foreldrinu?

• Þarf að láta fylgja með forsjárvottorð ef annað foreldri fer eitt með forjsá barnsins?

• Á hvaða tungumáli eiga skjölin að vera og þarf að þýða skjölin á tungumál viðkomandi lands?

• Þarf lögbókandi að votta yfirlýsinguna?

• Er rétt að fá apostille vottun á skjölin frá utanríkisráðuneyti?

Upplýsingar um sendiráð og tengiliði eru á vef utanríkisráðuneytisins.

Tengill á samþykkisyfirlýsingu