Hefur þú gert þær ráðstafanir sem þarf vegna erfðamála?
Með aukinni velmegun fá sífellt fleiri verulegan arf en arfskipti geta valdið ósætti og vandamálum í fjölskyldum
Mikilvægt er að gera erfðaskrá til að tryggja það að fjármunir lendi í réttum höndum.
Ekki er óalgengt að fólk hafi ekki náð að útbúa erfðaskrá í tíma og þá eru einnig dæmi um að reynt sé að hafa áhrif á arfláta sem eru í veikri stöðu t.d. vegna elliglapa, Alzheimer, veikinda eða annarra ástæðna.
Ein ástæða getur verið sú að fólk lifir lengur og af því leiðir að fleiri fá veikindi á borð við Alzheimer, fleiri búa einir en áður var auk þess sem aukin velmegun þýðir að meiri verðmæti eru til skiptanna.
Því miður eru dæmi um að verið sé að misnota fólk – það geta verið ættingjar, vinir, starfsfólk o.s.frv. sem nýta sér veika stöðu eldra fólks og ná peningum og öðrum verðmætum úr búinu.
Opinberar tölur bera með sér að Alzheimertilfellum hjá 65 ára og eldri fari fjölgandi. Á sama tíma hefur eignastaða fjölda fólks aukist mikið undanfarið – íbúðaverð hækkar o.s.frv.
Þó er einnig mikilvægt að hafa í huga að það er ekki endilega samhengi á milli þeirra vandamála og ágreinings em komið getur upp og verðmætis dánarbúsins – það verða ekkert síður átök og leiðindi þar sem minna er til skiptanna.
Til að forða vandamálum og leiðindum er ráðlegt að gera erfðaskrá. Þeir sem ekki eiga neina skylduerfingja geta ráðstafað eigum sínum að vild með erfðaskrá. Þrátt fyrir skylduerfingja er öllum heimilt að ráðstafa allt að 1/3 eigna sinna með erfðaskrá.
Þá getur verið skynsamlegt, sérstaklega ef um veikindi er að ræða, að útbúa yfirlýsingu vegna heilsubrests, en þar er um að ræða yfirlýsingu þar sem sá er gefur, lýsir yfir að þeirri ósk að ákveðinn nafngreindur einstaklingur verði gerður að fjárhaldsmanni sínum, og/eða umboð vegna heilbrigðisástands þannig að ljóst sé hver eigi að sjá um hvað og hvernig standa skuli að málum. Um er að ræða umboð sem tekur gildi á þeim degi þegar staðreynt er að viðkomandi aðili hafi ekki lengur andlega eða líkamlega burði til að sinna sínum málefnum, einkum og sér í lagi fjármálum sínum.