Erfðaskrár

Erfðaskrá einstaklings

Einföld erfðaskrá þar sem einn arfleifandi arfleiðir einn eða fleiri aðila að öllum eignum sínum hverju nafni sem þær kunna að nefnast. Slík erfðaskrá gerir ráð fyrir að arfleifandi sé hvorki í hjúskap, né eigi afkomendur eða skylduerfingja. Einu erfingjar hans eru lögerfingjar sem eru annaðhvort foreldrar, systkini eða systkinabörn. Í þeim tilvikum hefur arfleifandi heimild til að ráðstafa að vild öllum eigum sínum til bréferfingja sinna á grundvelli 35.gr. erfðalaga nr. 8/1962. Eigi arfleifandi hvorki lögerfingja né skylduerfingja þá rennur arfur eftir hann þ.e.a.s. allar eigur arfláta til ríkisins. Í þeim tilvikum er nauðsynlegt að gera erfðaskrá þar sem bréferfingi eða bréferfingjar erfa viðkomandi.

Erfðaskrá sambúðarfólks sem á skylduerfingja 

Milli sambúðarfólks gildir ekki gagnkvæmur erfðaréttur né önnur réttindi. Hafi sambúðaraðili í hyggju að láta þann sambúðaraðila sem lengur lifir erfa að einhverju leyti þá verður að gera erfðaskrá. Eigi sambúðaraðili skylduerfingja þ.e.a.s. börn á lífi þá verður að taka það fram. Sé sambúðaraðila ekki getið í erfðaská fá skylduerfingjar, eða lögerfingjar allan arf eftir þann sambúðaraðila sem deyr.
Ef skylduerfingi er á lífi má einungis ráðstafa þriðjungi eigna til sambúðaraðila. Til að tryggja rétt sambúðaraðila til setu í óskiptu búi þarf að stofna til formlegs hjúskapar.
Ef skylduerfingi er ólögráða og í forsjá sambúðaraðila er hægt að óska eftir forsjá eftirlifandi sambúðaraðila yfir barni eða börnum með samningi um forsjá .

Formsatriði

Erfðaskrá er formbundinn gjörningur sem skal vera skriflegur og vottaður í samræmi við lög. Ef meinbugir eru á vottun eða formi erfðaskrár getur það leitt til ógildingar hennar.
Það verður að votta erfðaskrána með þar til bærum, tveimur, arfleiðsluvottum sem kallaðir eru til að staðfesta vilja, hæfi og andlega getu arfleifanda, þeir mega ekki hafa hagsmuni eða fjölskyldutengsl við arfláta. Öruggast er að fá vottun lögbókanda í heimilisvarnarþinghá viðkomandi arfleifanda, sem skráir og varðveitir staðfest eintak. Lögbókandi (Notarius publicus) er sýslumaður í viðkomandi umdæmi. Gjald er tekið fyrir vottun lögbókanda. Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu er að Hlíðasmára 1, 201 Kópavogi. Arfleifandi verður að sanna deili á sér með gildum persónuskilrikjum svo sem vegabréfi og má ekki vera beittur þvingunum við að koma til lögbókanda.