Yfirlýsing í tengslum við heilsubrest
Í upphafi skyldi endinn skoða, lífið er margbreytilegt og ekki verður allt fyrirséð. Miklar breytingar geta átt sér stað með skömmum aðdraganda. Þótt vonandi þurfi aldrei að koma til þess að umboð vegna heilbrigðisástands umboðsveitanda komi til framkvæmda, þá er gott að ganga frá slíku umboði til að kunngjöra vilja sinn á meðan fullrar andlegrar og líkamlegrar heilsu nýtur við.
Hér er um að ræða yfirlýsingu þar sem sá er gefur, lýsir því yfir að hann óski eftir því að ákveðinn nafngreindur einstaklingur verði gerður að fjárhaldsmanni sínum á grundvelli e.liðar 2. mgr. 34. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, með síðari breytingum, og ef hann getur ekki sinnt starfanum að þá skuli hann tilnefna annan aðila sem skuli skipa sem fjárhaldsmann. Með þessu er búið að tryggja að sá sem gefur yfirlýsinguna hafi hönd í bagga með því hver skuli fara með fjárhagsmálefni hans komi til þess að honum bresti heilsa til þess að ráða ráðum sínum sjálfur. Hér þarf að gæta að því að sá sem tilnefndur er sem fjárhaldsmaður sé heiðvirður einstaklingur sem sé ekki of aldraður þannig að líkur séu til að hann verði andlega burðugur til að taka að sér verkið ef til þess kemur. Um störf hans skulu gilda lögræðislög, m.a. um hæfi og heimildir hans og ákvörðun þóknunar honum til handa ásamt eftirlitskyldum sem hann ber.
Í annan stað byggir yfirlýsing þessi á því að taka þann kaleik af nánum aðstandendum að taka erfiðar ákvarðanir um læknismeðferð við lok lífs. Byggir yfirlýsingin á að besta læknisfræðilega meðferð sem völ er á sé nýtt til fullnustu og ef tveir óvilhallir læknar og/eða sérfræðiteymi sjúkrahúss staðfesti að sá er yfirlýsinguna gefur skuli fara í lífslokameðferð, þá verði farið eftir því í einu og öllu.
Umboð þetta er sett upp með þeim hætti að það verði ritað undir það í viðurvist Lögbókanda í viðkomandi umdæmi og með því sé tryggt að efni þess sé vottað með réttum hætti og að það sé geymt í bókum viðkomandi sýslumannsembættis. Einnig er gott að geyma eintak af því á vissum stað og láta nána aðstandendur vita af tilvist og staðsetningu þess.
Klínískar leiðbeiningar um líknarmeðferð
Leiðbeiningar Landspítala háskólasjúkrahúss
Tengd skjöl
Hér má finna fleiri skjöl er varða ráðstafanir tengdar málefnum þessum.
Gerð skjals | Erfðamálefni, Fjölskylduréttur, Fyrirsvar / umboð |
Efnisorð | andlát, arfur, fjármál, yfirlýsing |
Forskoðun | |
Dagsetning útgáfu |