Samningur sambúðarfólks í skráðri sambúð

Oft virðist sem fólk telji að ekki sé mikill munur á því að búa saman, vera í skráðri sambúð eða hjúskap og virðast sumir telja að þessi sambúðarform séu svipuð og veiti sambærileg réttindi. Raunin er hins vegar allt önnur og á þessum sambúðarformum er mikill munur réttindalega séð.

Á Íslandi eru ekki til nein heildarlög sem taka á reglum um sambúð og skráða sambúð en um hjúskap gilda hjúskapalög nr. 31/1998, með síðari breytingum. Ýmis sérlög kveða síðan á um réttindi þeirra sem eru í skráðri sambúð og þá aðallega þegar kemur að félagslegum réttindum og skyldum einstaklinga.

Það skiptir máli fyrir réttindi fólks sem ætlar að búa saman hvort sambúðin er skráð eða ekki. Réttarumgjörð sambúðar án skráningar er veikust á meðan sambúð sem hefur verið skráð hjá Þjóðskrá veitir ýmis félagsleg réttindi og skyldur sem væru annars ekki til staðar. Þessi réttindi eru oft háð því að fólk hafi verið í sambúð í ákveðinn tíma (amk 12 mánuði) og/eða eigi barn saman. Þar er m.a. átt við réttindi og skyldur varðandi almannatryggingar, vinnumarkaðsrétt, skattamál og félagsþjónustu sveitarfélaga.

Fólk í skráðri sambúð á til dæmis réttindi samkvæmt 49. gr. almannatryggingalaga nr. 100/2007, með síðari breytingum, þar sem kveðið er á um að aðilar í skráðri sambúð hafi sama rétt til bóta og fólk í hjónabandi, ef sambúðin hefur verið skráð í Þjóðskrá lengur en í eitt ár. Sama rétt eiga þau ef þau eiga barn saman eða ef þau eiga von á barni saman, enda sé sambúð þeirra skráð í þjóðskrá. Réttur til makalífeyris skv. 16. gr. lífeyrissjóðslaga nr. 129/1997, með síðari breytingum, nær bæði til aðila í hjónabandi og óvígðri sambúð. Hið sama á við varðandi reglur skaðabótaréttarins sem horfa jafnt við fólki í hjónabandi og í skráðri sambúð. Þegar réttur til skaðabóta vegna fráfalls sambúðaraðila myndast þá skiptir ekki máli hvort um hjúskap eða skráða sambúð er að ræða. Hér er um að ræða dæmi um réttindi sem falla bæði til fólks í hjúskap sem og þeirra sem eru í skráðri sambúð, samkvæmt skilyrðum þar um, þ.e.a.s. eiga barn saman, vera með sama lögheimili og hafa haldið sameiginlegt heimili lengur en í 12 mánuði.

Þrátt fyrir að ýmis réttindi fylgi skráðri sambúð þá er réttindastaða sambúðarfólks að öðru leyti mun minni en þeirra sem eru í hjúskap. Sem dæmi má nefna að fjárhagur fólks í sambúð er ekki sameiginlegur og eins er ekki til staðar framfærsluskylda. Þetta á við hvort sem sambúðin er skráð eða ekki. Sambúð og skráð sambúð veita ekki erfðarétt, rétt til hjúskapareigna eða annars slíks.

Þegar sambúð hefst, hvort sem hún er skráð eða ekki, er mikilvægt fyrir fólk að skoða málin og gera það sem hægt er til að tryggja réttindi sín og barna sinna. Eins og staðan er í dag er eina leiðin til að gera slíkt sú að aðilar geri með sér sambúðarsamning. Í þeim samningi er kveðið á um ýmis atriði sem mikilvægt er að sambúðarfólk skoði strax í upphafi svo hægt verði að forðast á síðari stigum ágreining komi til sambúðarslita eða fráfalls.

Í sambúðarsamningi þarf t.d. að kveða á um það hvernig eigi að fara með kaup á sameiginlegri fasteign, hvernig á reka hana, hvernig reikna eigi eignarhluta sambúðarfólks með tilliti til þess hvað þeir leggja til kaupanna, hvernig eigi að fara með börn sambúðaraðila sem eiga einnig aðra forsjáraðila á lífi. Þá er gott að hafa í samningnum yfirlýsingu um að aðilar geri með sér gagnkvæma erfðaskrá, hvernig fara eigi með sameiginlegt innbú, svo fáein dæmi séu nefnd.

Í raun er ávallt gott að skoða hvort ekki sé hagkvæmt, sér í lagi þegar sameiginleg börn eru til staðar, að íhuga af alvöru að ganga í hjúskap, til að mynda með því að biðja sýslumann um slíka vígslu. Hjúskapur veitir aðilum bestu réttarstöðu sem þeir geta notið í samlífi sínu.

Í þessum sambúðarsamningi er gengið út frá því að sambúðaraðilar séu í skráðri sambúð og eigi börn saman. Einnig byggir sambúðarsamningurinn á því að til staðar séu börn sem sambúðaraðilar eiga með öðrum forsjáraðilum, og að líkur séu til þess að börn annars hins nýja sambúðaraðila muni búa á sameiginlegu heimili. Gert er ráð fyrir því að komi til þess að báðir forsjáraðilar slíkra barna falli frá þá skuli sambúðaraðilinn sem lengur lifir fara með forsjá barnanna. Hér er einnig kveðið á um að aðilar ætli að gera með sér gagnkvæma erfðaskrá til að bæta réttarstöðu sína og muni skrá sig í sambúð innan 24 mánaða frá dagsetningu sambúðarsamningsins, til að tryggja réttarstöðu frekar. Sambúðarsamningurinn tekur á því að í upphafi sé keypt fasteign og hvernig hún er fjármögnuð og hvernig eignamyndun aðila verður í fasteigninni, einnig við sambúðarslit hafi annar aðili sannanlega greitt meira en hinn. Samningurinn gerir ráð fyrir að innbú verði fjármagnað sameiginlega og að ef komi til sambúðarslita verði því skipt til helminga. Hér er átt við búsmuni vegna heimilisins, ekki vegna vinnu, áhugamála eða annars slíks, heldur eingöngu það sem er inná heimilinu t.d. í stofu, borðstofu, eldhúsi, svefnherbergi, baði og í þvottaherbergi og út í garði eða palli.

Nauðsynlegt er að geyma eintak af sambúðarsamningnum á öruggum og tryggum stað og láta þriðja aðila geyma eintak af samningnum. Ráðlegt er að geyma samning þennan, ásamt öðrum mikilvægum skjölum í bankahólfi.

 

Í hjúskap er kveðið á um réttindi hjúskaparaðila, m.a. um erfðarétt, gagnkvæma framfærsluskyldu, eignaskipulag, hjúskapareignir og fjárhagsmálefni að öðru leyti.

Tengd skjöl:

Bæta á óskalista
Includes 0% tax
Gerð skjals , ,
Efnisorð , , , ,
Forskoðun
Dagsetning útgáfu
3 Svör

Lokað er fyrir athugasemdir.