Aðfararbeiðni til héraðsdómstóls um útburð

Komi til þess að leigjandi vanefni skyldur sínar samkvæmt leigusamningi, einkum með því að greiða ekki húsaleigu, þarf að senda honum greiðsluáskorun og yfirlýsingu um riftun. Í kjölfarið þarf að senda út áskorun um að húsnæðið verði rýmt fyrir ákveðinn tíma. Verði leigjandi ekki við þeirri áskorun þá hefur leigusali þann eina möguleika að krefjast þess af héraðsdómi að leigjandinn verði borin út úr húsnæðinu með beinni aðfarargerð á grundvelli 78. gr. laga nr. 90/1989, með síðari breytingum.

Leigusali og eða fyrirsvarsmaður leigusala hefur heimild til að fara með málið til úrlausnar fyrir héraðsdóm eða hann getur leitað til lögmanns. Kjósi leigusali að fara sjálfur með málið þá þarf hann að útbúa aðfararbeiðni til héraðsdómstóls. Í þeirri aðfararbeiðni er leigusali nefndur gerðarbeiðandi og leigutaki gerðarþoli. Tiltaka þarf heimildir leigusala, þ.m.t. dags. kaupsamnings hans eða eignarheimildar hans, dags. leigusamnings milli aðila, og upphæð vangreiddrar leigu. Hann þarf einnig að láta fylgja með þau gögn sem máli skipta, þ.m.t.;

  • Aðfararbeiðnina sjálfa
  • Yfirlit yfir ógreidda leigu
  • Afrit af greiðsluáskorun og riftunaryfirlýsingu
  • Afrit af áskorun um rýmingu
  • Afrit af húsaleigusamningi
  • Afrit af kaupsamningi hans eða eignarheimild
  • Útprentun úr fyrirtækjaskrá sé um að ræða lögaðila.

Aðfararbeiðnin er gerð í þríriti, eitt fyrir leigusala og tvö eintök þarf að fara með til viðkomandi héraðsdómsstóls og greiða þingfestingargjald sem nemur í dag kr. 19.000,-.

Leigusali þarf jafnframt að láta fylgja með upplýsingar um síma og netfang sitt ásamt samsvarnadi upplýsingum um leigutaka svo dómstóllinn geti boðað aðila í þingfestingu.Við þingfestingu er málið tekið fyrir og ef leigjandi kemur og heldur uppi vörnum þá er honum veittur skammur frestur til að leggja fram greinargerð. Í öðru þinghaldi, fyrirtöku,  er greinargerð leigjanda lögð fram. Því næst er ákveðinn munnlegur málflutningur og verður leigusali þá annaðhvort að ráða til sín lögmann eða flytja málið sjálfur munnlega og hafna vörnum leigutaka. Héraðsdómur kemur síðan með úrskurð þar sem beiðninni er annaðhvort synjað eða hún staðfest. Staðfesti dómstóllinn beiðnina þarf að fara með úrskurðinn til sýslumanns og krefjast útburðar.

Skref að útburði eru:

  1. Tilkynning um ógreidda leigu; tölvupóstur, SMS, símtal.
  2. Greiðsluáskorun.
  3. Riftun.
  4. Útburðarbeiði til Héraðsdóms.
  5. Aðfararbeiðni til sýslumanns.
  6. Fullnusta, – útburður.
Bæta á óskalista
Includes 0% tax
Gerð skjals , , , , ,
Efnisorð ,
Forskoðun
Dagsetning útgáfu