Ert þú að hugsa um að byggja, breyta eða bæta? Þarft þú að fá aðstoð iðnaðarmanns? Þá borgar sig að gera samning

Breytingar og lagfæringar á húsnæði: svona forðast þú misskilning og dýr mistök

Vinna og þekking smiða, rafvirkja, múrara, pípulagningamanna og annarra iðnaðarmanna er grundvöllur þess að breytingar og lagfæringar á húsnæði geti orðið að veruleika. Það er mjög mikilvægt að undirbúa vinnuna vel og skýrir samningar við iðnaðarmennina sem munu vinna verkið eru algjörlega nauðsynlegir. Það getur verið húseiganda dýrkeypt að hafa ekki gert góðan og skýran samning við verktaka áður en verkið hefst.

Gerðu skýran samning

Flest þurfum við á aðstoð iðnaðamanna og annarra verktaka að halda við það að endurnýja eldhúsið okkar eða baðherbergið, smíða pall eða þegar við viljum breyta og betrumbæta innan- eða utanhúss. Áður en nokkuð annað er gert skalt þú gera þér skýra grein fyrir því hvaða breytingar/verk þú vilt láta gera og útbúa verklýsingu/lista yfir breytingarnar. Verklýsingin verður þá sá grunnur sem tilboð í verkið byggja á og gera bæði þér og verktakanum auðveldara fyrir. Hafi verklýsingin verið vel unnin og útfærð þá gerir það þér auðveldara fyrir að biðja um tilboð og ekki síður að meta þau og velja á milli.

Verkið og breytingarnar geta bæði orðið þér dýrkeyptar og ekki eins og þú hafðir hugsað þér ef ekki hefur verið gerður skýr samningur.

Gott er að byrja á því að ræða verkið við verktakann og komast að samkomulagi um hvernig standa skuli að því. Að því loknu er rétt að gera formlegan samning. Ef skýr samningur hefur verið gerður er líka einfaldara að útkljá deilumál sem upp kunna að koma á meðan á verki stendur eða eftir verklok.

Gerðu samning með einföldum og ódýrum hætti. Þú getur nálgast eyðublaðið á vefsíðu E-skjala: https://eskjol.is/downloads/verksamningur-vid-verktaka/

Nokkur atriði sem gott er að hafa í huga:

Skoðaðu markaðinn

Áður en gerður er formlegur samningur við verktaka þarftu að finna góðan fagmann og vera með nokkuð mótaðar hugmyndir um verkið og þá lokaútkomu sem þú sérð fyrir þér.

Verð og gæði geta verið mismunandi milli verktaka og þess vegna er mikilvægt að skoða málin vel áður en farið er af stað:

  • Skoðaðu á netinu. Oft eru iðnaðarmenn og fyrirtæki/samtök með síður þar sem hægt er að fá upplýsingar og tilboð, þú þarft að gefa upplýsingar um hvernig hægt era ð ná í þig og lýsa verkinu. Það er góð þumalputtaregla að fá tilboð frá 3 aðilum áður en farið er af stað.
  • Athugaðu hvort einhver sem þú þekkir getur mælt með góðum iðnaðarmanni.
  • Skoðaðu meðmæli með verktakanum sem þú hefur hug á að fá í verkið, en vertu viss um að þær séu sannleikanum samkvæmar.
  • Kynntu þér upplýsingar um verktakann/fyrirtækið hjá opinberum aðilum, t.d. hjá fyrirtækjasksrá Skattsins (https://www.rsk.is/fyrirtaekjaskra/)

Fáðu nokkur tilboð í verkið

Fáðu tilboð í verkið frá 2-3 iðnaðarmönnum/verktökum þannig að þú hafir grundvöll til að bera saman hvað verið er að bjóða þér og hvað það á að kosta.

Í sumum tilfellum þarf að borga fyrir tilboðið. Ef þér er gert að borga fyrir tilboðið þá skaltu fá þær upplýsingar skriflega áður en þú færð tilboðið sent.

Notaðu tilboðin til að semja um verð við iðnaðarmennina. Mundu að lesa tilboðið nákvæmlega, líka smáa letrið, þannig að þú vitir nákvæmlega hvað verið er að bjóða þér – það getur verið munur á efni og lausnum sem getur þýtt að það borgi sig að taka hærra tilboði í verkið.

Tilboðið verður að vera skriflegt. Þannig hefur þú eitthvað að vísa í ef til þess kemur að þið verktakinn verðið óssammála um umfang tilboðsins, verð eða gæði verksins.

Verktíminn – upphaf, meðan á vinnu stendur og lokaniðurstaða

Það er erfitt, ef ekki ómögulegt, fyrir verktakann að vinna verkið eins og þú vilt að það sé gert ef þú hefur ekki útskýrt það nákvæmlega og þið komist að niðurstöðu um hvað eigi að gera, hvernig  og hver lokaútkoman á að vera.

Þú þarft að útskýra hvernig þú vilt hafa verkið eins nákvæmlega og hægt er fyrir iðnaðarmanninum þannig að þið getið verið sammála um hvenær hægt er að líta svo á að verkinu sé lokið.

Ráðlegt er fyrir þig að fylgjast vel með á meðan verkið er unnið. Það er góð hugmynd að taka myndir af því sem gert er og biðja verktakann að skrá það sem gert er og taka myndir af framvindu verksins. Það að vera með allt vel skráð og á hreinu getur sparað mikla vinnu og möguleg leiðindi á síðari stigum.

Komi til þess (og það gerist oft) við framvindu verksins að eitthvað ófyrirséð gerist, þörf sé á meiri vinnu en áætlað var í upphafi þarf að skoða það sérstaklega og fá verðtilboð í aukaverkið. Þú og verktakinn þurfið að koma ykkur saman um hvað það er sem þarf að gera og eiga um það skriflegt samkomulag.

Við verklok er eðlilegast að þú og iðnaðarmaðurinn hittist á lúkningarfundi og farið yfir verkið og lokaniðurstöðuna. Þá er hægt að fara yfir það hvort eitthvað vanti uppá, og ef svo er, gera áætlun um hvernig bæta á úr því þannig að hægt sé að ljúka verkinu. Samningurinn sem þið gerið ætti að kveða á um hvort lúkningarfundur er innifalinn í verðinu eða ekki.

Tímalengd: hvenær á verkinu að vera lokið?

Í flestum tilfellum vilja báðir aðilar að verkinu sé lokið sem allra fyrst. Þú og verktakinn þurfið í sameiningu að ákveða hversu langan tíma verkið á að taka. Best er að þessi ákvörðun sé skrifleg og sett í verksamninginn þannig að hægt sé að vísa til þess ef upp koma vandamál á síðari stigum.

Samningurinn þarf líka að taka á því hvaða viðurlögum á að beita ef verki seinkar. Ef ekki hefur verið samið um ákveðna dagsetningu þarf að taka fram að verkinu skuli lokið innan eðlilegs/hæfilegs tíma.

Verktíminn getur lengst af eðlilegum orsökum, svo sem ef verkið er flóknara í vinnslu en gert var ráð fyrir og eins ef tafir verða á afhendingu efnis og aðfanga. Ef seinkun á verki er þér að kenna getur þú ekki farið fram á að verktakinn beri skaða af því.

Greiðslur: hversu mikið, hvenær og með hvaða hætti?

Skýrt samkomulag þarf að vera um greiðslur – báðir aðilar þurfa að vera sammála um hvenær á að borga og hversu mikið. Einnig um það hvenær þér, sem verkkaupa, er heimilt að halda eftir greiðslu.

Ef gerð er kostnaðaráætlun þá er hún ekki endanleg hvað heildarkostnað varðar. Ráðlegt er að þið ákveðið í sameiningu hvernig á að bregðast við því ef farið er fram úr kostnaðaráætlun. Ein leið er t.d. sú að verktakinn þurfi eins fljótt og hægt er að láta vita og fá samþykki fyrir kostnaði sem fer meira en 10-15% framyfir það sem áætlað var.

Verkaskipting: hver gerir hvað?

Samkomulag um verkaskiptingu, eða hver gerir hvað, er mikilvægt því það er mjög oft þar sem hætta er á að misskilningur komi upp.

Þú og verktakinn verðið að komast að samkomulagi um hver gerir hvað, t.d. hver kaupir efni, hver sækir um leyfi til viðkomandi yfirvalda ef með þarf, hver sækir um lokaúttekt í stærri verkum o.s.frv.

Gallar: hvernig á að bæta úr þeim?

Ef verkið hefur ekki verið unnið á þann hátt sem samið var um þá er um galla að ræða. Það telst líka galli ef vinnan er ófagleg eða ekki samkvæmt stöðlum og reglugerðum eða ekki í samræmi við þær leiðbeiningar sem þú hefur gefið (að því gefnu að þær leiðbeiningar séu framkvæmanlegar og í samræmi við reglur).

Þú átt rétt á að gallar á verkinu séu lagfærðir, líka þó þeir komi ekki í ljós fyrr en eftir að verki var lokið. Sé um slíkt að ræða þarft þú að láta vita af gallanum innan eðlilegs tímafrests.

Það hvað telst eðlilegur tímafrestur veltur á því hvers eðlis gallinn er. Sérstaklega mikilvægt er að bregðast fljótt við ef um er að ræða galla sem gæti versnað eftir því sem lengri tími líður, og eins ef um er að ræða atriði sem gæti valdið frekari skemmdum á húsnæðinu. Dæmi um slíkt gæti t.d. verið rakaskemmd á baðherbergi.

Verktakinn hefur einnig rétt á því að lagfæra gallann innan eðlilegra tímamarka.

Ástandsskoðun eftir eitt ár?

Ákvæði um að verkið verði ástandsskoðað eftir eitt ár gefur þér, vertakanum og mögulega verkfræðingi/byggingarfræðingi tækifæri til þess að skoða verkið ári eftir verklok. Þetta getur verið gott, sérstaklega í stærri verkum þar sem gallar gera oft ekki vart við sig fyrr en eftir nokkurn tíma.

Ákvæði um ástandsskoðun eftir ár þarf að vera í samningnum sem þú gerir við verktakann viljir þú að skoðunin fari fram. Þar þarf einnig að koma fram hver eigi að kalla eftir skoðuninni og fastsetja þarf dagsetningu fyrir hana.

Áður en skoðunin fer fram þarft þú að skoða vandlega það sem unnið var og skrá hjá þér þá galla sem þú telur vera til staðar.

Á meðan á skoðuninni stendur gangið þið um húsnæðið, skoðið verkið og komið ykkur saman um mistök og galla á verkinu. Að því loknu er skrifuð skýrsla.

Í skýrslunnni skráið þið niður það samkomulag sem þið komist að varðandi galla og úrbætur á þeim m.a.:

  • Hvenær skulu úrbætur á göllum í síðasta lagi hafa farið fram
  • Hver er ábyrgur fyrir kostnaði vegna úrbótanna
  • Praktísk atriði eins og t.d. á verktakinn að fá lykil að húsnæðinu meðan á lagfæringum stendur, eiga þær að fara fram á ákveðnum tíma dags o.s.frv.